Kafli 1 Inngangur

1.1 Tilgangur verkefnis

Tilgangur verkefnisins er að gera forkönnun á nýtingu þaraskóga við austanverðan Húnaflóa, með áherslu á stórþara (Laminaria hyperborea), hrossaþara (Laminaria digitata) og beltisþara (Laminaria saccharina). Verkefninu er skipt upp í sýnatökur annars vegar og hins vegar áætlun um heildarmagn þara á svæðinu sem má vinna með sjálfbærum hætti.

1.2 Þari til nýtingar á Íslandi

Þari er samheiti yfir nokkrar tegundir brúnþörunga sem finnast á grunnsævi (allt að 30 metrum) í klappar, hnullunga og grjótfjörum við landið („Þari eftir Karl Gunnarsson“ 1997). Þari er nýttur í yfir 30 löndum og er árleg uppskera yfir 800 þúsund tonn á heimsvísu (Monagail o.fl. 2017). Fjölsykrur sem finna má í brúnþörungum eru mikið notaðar sem bindiefni í matvælum, snyrtivörum, lyfjaiðnaði, textíliðnaði og markskonar öðrum iðnaði. Hrossaþari (L. digitata) og beltisþari (L. saccarina) henta vel í framleiðslu á fjölsykrum en Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum hefur þurrkað og malað hrossaþara og selt erlendis til alginatframleiðslu (alginat er fjölsykra). Einnig hefur fyrirtækið Purity Herbs á Akureyri notað hrossaþara frá Þörungaverksmiðjunni í sinni framleiðslu (Jónsdóttir 2011).

1.3 Um þaraskóga

Stórir þaraskógar finnast á grunnsævi á hærri breiddargráðum við lægri hita en 20°C. Uppistaða skóganna eru brúnþörungar af ættkvísl (genus) Laminaria og þá helst hrossaþari (L. digitata), stórþari (L. hyperborea), beltisþari (L. saccharina) og marinkjarni (Alaria esculenta (L.)). Þari þarf fast undilag til að festa sig við, grjót eða klappir, og þrífst því ekki á sand- eða leirbotni. Þari þarfnast sólarljóss sem orkugjafa sem takmarkar útbreiðslu þara niður fyrir ákveðið dýpi sem getur verið misjafnlega mikið eftir skyggni sjávarins en þari hefur fundist á 30 metra dýpi hér við land („Þari eftir Karl Gunnarsson“ 1997).

Notast hefur verið við loftmyndir úr gervihnöttum og dróna til að meta þangútbreiðslu (Gunnarsson o.fl. 2017) en vandasamt er að meta útbreiðslu þara þar sem loftmyndir í nægjanlegum gæðum eru af skornum skammti og oft er glampi af haffletinum eða skýjahula sem þekur myndirnar.

Þari á sér náttúrulega óvini eins og ígulker og snigla og því er ekki endilega þara að finna á stöðum sem þó fullnægja kröfum um festu og dýpi. Þarabreiður geta líka rifnað upp í miklu roki og erfitt er fyrir þarann að setjast aftur þar sem ígulkerin skrapa upp græðlinga. Þess vegna var ákveðið að kanna þarabreiður með neðansjávarmyndavél, fjarstýrðum kafbáti (1.1), í þessu verkefni.

Tækið sem fékkst fyrir styrkféð frá SSNV kallast [Trident](https://www.openrov.com/) og er framleitt af OpenRov. Hér sést Karin Zech starfsmaður BioPol rýna á skjáinn á fjarstýringunni að tækinu og Guðmundur Björnsson fyrrv. grásleppuveiðimaður var okkur til halds og trausts. Tækið sem fékkst fyrir styrkféð frá SSNV kallast [Trident](https://www.openrov.com/) og er framleitt af OpenRov. Hér sést Karin Zech starfsmaður BioPol rýna á skjáinn á fjarstýringunni að tækinu og Guðmundur Björnsson fyrrv. grásleppuveiðimaður var okkur til halds og trausts.

Mynd 1.1: Tækið sem fékkst fyrir styrkféð frá SSNV kallast Trident og er framleitt af OpenRov. Hér sést Karin Zech starfsmaður BioPol rýna á skjáinn á fjarstýringunni að tækinu og Guðmundur Björnsson fyrrv. grásleppuveiðimaður var okkur til halds og trausts.

Heimildir

Gunnarsson, Karl, Julian Bourgos, Lilja Gunnarsdóttir, og Svanhildur Egilsdóttir. 2017. „Klóþang í Breiðafirði útbreiðsla og magn“. https://www.althingi.is/altext/erindi/146/146-1208.pdf.

Jónsdóttir, Eydís Mary. 2011. „Fjörunytjar á Suðurnesjum“.

Monagail, Michéal Mac, Lynn Cornish, Liam Morrison, Rita Araújo, og T Alan. 2017. „Sustainable harvesting of wild seaweed resources“. European Journal of Phycology 52 (4): 371–90. https://doi.org/10.1080/09670262.2017.1365273.

„Þari eftir Karl Gunnarsson“. 1997. Í Þari. Reykjavík: Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun. https://www1.nams.is/hafid/pdf/thari.pdf.