Kafli 2 Framkvæmd

2.1 Sýnatökur

Ákveðið var að hefja forkönnun á hluta svæðisins á sjókajak dagana 2. og 15. ágúst 2017. Í fyrri ferðinni var farið á tveimur kajökum frá Skagaströnd til Eyjareyjar (um 6 km leið) en í seinni ferðinni var farið var frá Kálfshamarsvík til Skagastrandar (um 20 km leið) og skiptust þá tveir ræðarar á (sjá Viðauka 1). Í þessum leiðöngrum fékkst gróf yfirsýn og voru nokkur svæði valin til frekari skoðunar seinna með neðansjávarmyndavél, fjarstýrðum kafbáti (1.1).

Þann 21. Júní 2018 var farið í fyrstu myndatökurnar en það vildi svo óheppilega til að kafbáturinn bilaði í þeirri ferð. Nýtt tæki var fengið rúmum mánuði seinna 8. ágúst (sjá Viðauka 2). Sýnatökum var svo haldið áfram seinna um haustið og sumarið á eftir.

Eftir því sem verkefnið þróaðist var ljóst að búast má við þéttum þarabreiðum frá fjörumörkum niður að 15 m dýpi en sjaldan neðar (þó sást gisin þarabreiða á Skallarifi við Hafnir á um 20 m dýpi). Það var því ákveðið að minnka fyrirhuguð sýnatökusvæði og notast við Zodiac gúmmíbát sem fékkst leigður af björgunarsveitinni Strönd á Skagaströnd. Alls var farið í 6 leiðangra á gúmmíbáti (sjá myndatökur 1):

Staður Dagsetning Athugasemd
Skagstr.-Ytriey 2. ágúst 2017 Forskoðun
Kálfsh.vík - Skagstr. 15. ágúst 2017 Forskoðun
Finnstaðanes 6. september 2018 Myndataka
Eyrin 11. júní 2019 Myndataka
Stekkjavík 21. júní 2019 Myndataka
Sauðá 11. júlí 2019 Myndataka
Hofsgrunn 15. júlí 2019 Myndataka
Hindisvík 21. ágúst 2019 Myndataka
Hafnir 25. sept 2019 Myndataka

Við forkönnun á kajak var komið auga á áhugaverða staði sem voru kannaðir með drónanum en að auki nokkra staði sem ekki gafst færi á að kanna með drónanum en höfðu að geyma þarabreiður. Flatarmál þarabreiðanna er lauslega metið með eftirfarandi hætti

  • Sjónrænt
    • Athugun úr báti: mörk þarabreiðanna metin eftir litabreytingum á botni (undir 10 m sýnileiki)
    • Athugun með neðansjávardróna
  • Á korti
    • Áætluð útbreiðsla staðfestra þarabreiða frá strandlínu að 10 m dýptarlínum

2.2 Úrvinnsla

Notast var við kortagrunn frá Landhelgisgæslunni (dýptarlínur) og Landmælingum Íslands (strandlína) til að meta flatarmál þarabreiða í austanverðum Húnaflóa frá strandlínu að 10 m dýpi. Flákar voru búnir til í kortagerðarforritinu QGIS en útreikningar gerðir í reikniforritinu R.