Kafli 2 Framkvæmd
2.1 Sýnatökur
Ákveðið var að hefja forkönnun á hluta svæðisins á sjókajak dagana 2. og 15. ágúst 2017. Í fyrri ferðinni var farið á tveimur kajökum frá Skagaströnd til Eyjareyjar (um 6 km leið) en í seinni ferðinni var farið var frá Kálfshamarsvík til Skagastrandar (um 20 km leið) og skiptust þá tveir ræðarar á (sjá Viðauka 1). Í þessum leiðöngrum fékkst gróf yfirsýn og voru nokkur svæði valin til frekari skoðunar seinna með neðansjávarmyndavél, fjarstýrðum kafbáti (1.1).
Þann 21. Júní 2018 var farið í fyrstu myndatökurnar en það vildi svo óheppilega til að kafbáturinn bilaði í þeirri ferð. Nýtt tæki var fengið rúmum mánuði seinna 8. ágúst (sjá Viðauka 2). Sýnatökum var svo haldið áfram seinna um haustið og sumarið á eftir.
Eftir því sem verkefnið þróaðist var ljóst að búast má við þéttum þarabreiðum frá fjörumörkum niður að 15 m dýpi en sjaldan neðar (þó sást gisin þarabreiða á Skallarifi við Hafnir á um 20 m dýpi). Það var því ákveðið að minnka fyrirhuguð sýnatökusvæði og notast við Zodiac gúmmíbát sem fékkst leigður af björgunarsveitinni Strönd á Skagaströnd. Alls var farið í 6 leiðangra á gúmmíbáti (sjá myndatökur 1):
Staður | Dagsetning | Athugasemd |
---|---|---|
Skagstr.-Ytriey | 2. ágúst 2017 | Forskoðun |
Kálfsh.vík - Skagstr. | 15. ágúst 2017 | Forskoðun |
Finnstaðanes | 6. september 2018 | Myndataka |
Eyrin | 11. júní 2019 | Myndataka |
Stekkjavík | 21. júní 2019 | Myndataka |
Sauðá | 11. júlí 2019 | Myndataka |
Hofsgrunn | 15. júlí 2019 | Myndataka |
Hindisvík | 21. ágúst 2019 | Myndataka |
Hafnir | 25. sept 2019 | Myndataka |
Við forkönnun á kajak var komið auga á áhugaverða staði sem voru kannaðir með drónanum en að auki nokkra staði sem ekki gafst færi á að kanna með drónanum en höfðu að geyma þarabreiður. Flatarmál þarabreiðanna er lauslega metið með eftirfarandi hætti
- Sjónrænt
- Athugun úr báti: mörk þarabreiðanna metin eftir litabreytingum á botni (undir 10 m sýnileiki)
- Athugun með neðansjávardróna
- Á korti
- Áætluð útbreiðsla staðfestra þarabreiða frá strandlínu að 10 m dýptarlínum
2.2 Úrvinnsla
Notast var við kortagrunn frá Landhelgisgæslunni (dýptarlínur) og Landmælingum Íslands (strandlína) til að meta flatarmál þarabreiða í austanverðum Húnaflóa frá strandlínu að 10 m dýpi. Flákar voru búnir til í kortagerðarforritinu QGIS en útreikningar gerðir í reikniforritinu R.