Kafli 3 Farvegir örplasts

Rennandi vatn er helsti farvegur örplasts á landi til sjávar68 hvort sem það rennur eftir ám og lækjum eða niður ræsi og með skólpi. Aðrar farleiðir örplasts eru taldar upp í töflu 3.1. Margar gerðir örplasts flytjast að einhverju leyti með fleiri farvegum en einum en þrátt fyrir það eru ákveðnar uppsprettur örplasts einkennandi fyrir hvern farveg. Hér er því sett fram samantekt á því hvaða uppsprettur örplasts eru einkennandi fyrir hvern farveg, einkum þegar litið er til hlutfalls af heildarlosun hverrar uppsprettu. Þetta er því ekki tæmandi listi en er engu að síður hagnýt samantekt fyrir kortlagningu örplastmengunar innan einstakra vatnasvæða á Íslandi.

Örplast hefur fundist í miklu magni í botnseti rétt vestur af Svalbarða á 2,5 til 5,5 km dýpi69. Útilokað er að sú mengun sé staðbundin og sýnir fram á að örplast berst með hafstraumum á fjarlæg hafsvæði. Örplast getur því einnig borist inn á íslenskt hafsvæði með hafstraumum. Til dæmis með flæði Atlantshafssjávar úr suðri en það flæði er árstíðabundið og mismikið milli ára70 líkt og á við um hafstrauma sem fara í kringum Ísland og geta borið örplast frá helstu uppsprettum á suð- vesturhorni landsins, réttsælis með landinu norður fyrir Vestfirði71 á svæði þar sem mengun er ekki eins mikil frá landi vegna fámennari byggða.

Tafla 3.1: Helstu farvegir örplasts frá landi í sjó.
Gerð farvegs Farvegur Uppsprettur í farvegi
Rennandi vatn Fráveita: skólp og ofanvatn Fatnaður
Snyrtivörur
Plastframleiðsla
Gervigrasvellir
Leiksvæði
Skósólar
Vegryk*
Málning
Ár, lækir og skurðir Heyrúlluplast
Haglaskot
Plastrusl
Andrúmsloft Vindur Vegryk*
Áburður
Hafið Hafstraumar/sjávarföll Veiðarfæri
Búnaður í sjókvíaeldi
Plastrusl í hafinu
Annað Sigvatn Örplast frá urðunarstöðum
Snjómokstur Vegryk*
* Vegryk á við um hjólbarða og vegmerkingar

Á landi berst örplast með vatni, vindi og með athöfnum manna. Helsta uppspretta örplasts sem dreifist með vindi er slit hjólbarða bifreiða sem sest við vegi72. Dreifing örplasts getur einnig gerst með notkun seyru til landgræðslu en algengt er að hún innihaldi örplast úr snyrtivörum12 og plastúrgangi sem berst í skólphreinsistöðvar og rotþrær. Það sama getur gilt um jarðbæti unninn úr úrgangi sem inniheldur plast, einkum ef ekki er gert ráð fyrir hreinsun örplasts í míkró- og nanóstærð.

Fjórir flokkar náttúrulegra yfirborðsvatnshlota Íslands. Skálínurnar liggja yfir vatnasvæði nr. 4 á suðvesturhorni landsins.

Mynd 3.1: Fjórir flokkar náttúrulegra yfirborðsvatnshlota Íslands. Skálínurnar liggja yfir vatnasvæði nr. 4 á suðvesturhorni landsins.

Þegar losun örplasts á Íslandi er skoðuð er rétt að taka suðvestur horn landsins út fyrir sviga. Þar sem helsta farleið örplasts er með rennandi vatni er hér notast við skiptingu íslenska vatnaumdæmisins í fjögur meginvatnasvæði73. Á suðvesturhorni landsins er vatnasvæði sem rennur í Faxaflóa (sjá mynd 3.1). Á því svæði býr yfir 3/4 hlutar landsmanna3 og þar er summa árdagsumferðar rúmir 3/4 hlutar á landsvísu. Flatarmál bygginga þar er yfir 50% flatarmáls allra bygginga á landsvísu74 en flatarmál málaðra flata eflaust enn meiri vegna byggingarhæðar. Flestir landsmenn fara til Reykjavíkur reglulega til að sækja þjónustu sem þar er í boði, nær allar vöruflutningar eru um svæðið og nærri allt millilandaflug. Þrír stórir slippir af fjórum eru á Höfuðborgarsvæðinu og í Grindavík. Það er því rík ástæða til að skoða þetta svæði betur.

Skólp og ræsi

Fæst bæjarfélög á Íslandi hreinsa skólp að nokkru leyti (sjá mynd 3.2) en þar sem skólphreinsistöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu fer skólp frá flestum landsmönnum í gegnum hreinsun og hefur því hlutfall þeirra sem búa á svæðum þar sem skólp er hreinsað margfaldast á síðustu áratugum75.

Tegund skólphreinsunar skipt eftir fjórum flokkum náttúrulegra yfirborðsvatnshlota. Unnið upp úr samantekt á stöðu skólpmála á Íslandi árið 2014 [@Umhverfisstofnun2017].

Mynd 3.2: Tegund skólphreinsunar skipt eftir fjórum flokkum náttúrulegra yfirborðsvatnshlota. Unnið upp úr samantekt á stöðu skólpmála á Íslandi árið 201476.

Skólphreinsun í Reykjavík er svokölluð fyrsta stigs hreinsun, þar sem efni á föstu formi eru aðskilin vatni með botnfellingu, fleytingu eða notkun rista76. Þær eru í blönduðu kerfi sem tekur á móti skólpi ásamt ofanvatni og með yfirfalli þegar álag er mest. Ekki er áhersla lögð á að halda eftir örrusli í þeim skólphreinsistöðvum og hlutfall örplasts sem berst inn í skólphreinsistöðvarnar er ekki mjög frábrugðið því sem mælist í útfalli þeirra77. Yfir 90% skólps á Íslandi er losað í sjó eftir aðeins fyrsta stigs hreinsun (grófhreinsun án fellingar eða síunar öragna). Annað skólp er losað í ár og stöðuvötn og árósa. Sum bæjarfélög hafa sett upp tveggja þrepa hreinsun og flest heimili í dreifbýli eru með rotþrær þar sem eftir verður seyra (um 800 tonn árlega). Mest af seyrunni er urðað og lítið brot notað í landbúnað76.

Samkvæmt rannsókn á skólpi frá Reykjavík og Hafnarfirði77 var innfallsvatn til skólphreinsistöðva á í Reykjavík með færri agnir af örplasti á rúmmál vatns miðað við stöðvar í Svíþjóð og Finnlandi sem nam heilli stærðargráðu (10 og 100 sinnum minna). Hugsanlega var það vegna mikils regnvatns sem blandast innfallsvatninu (munnleg heimild Hrönn Jörundsdóttir) og mikils affallsvatns frá heimilum en vatnsnotkun íslenskra heimila er hugsanlega meiri að jafnaði78 og þéttleiki örplastagnanna því minni á rúmmálseiningu.

Í mati á losun vegna bílaumferðar var ekki gert ráð fyrir áhrifum götusópunar né þeim settjörnum sem eru við Vesturlandsveg austan Elliðaár í Reykjavík. Öllu uppsópi í Reykjavík (og kannski fleiri sveitarfélögum) er safnað saman og er það vegið áður en það er urðað svo einfalt er að nálgast það til að taka sýni. Þau sýni má senda erlendis til að mæla magn dekkjaagna á leifa af vegmerkingum í því. Einnig má taka botngreiparsýni úr settjörnum í Reykjavík til að kanna uppsöfnun dekkjaagna í setinu en það hefur ekki verið gert hérlendis.

Heimildir

12. Zitko V, Hanlon M. Another source of pollution by plastics: skin cleaners with plastic scrubbers. Marine Pollution Bulletin. 1991;22(1):41–42.

68. Unice K, Weeber M, Abramson M, o.fl. Characterizing export of land-based microplastics to the estuary-Part I: Application of integrated geospatial microplastic transport models to assess tire and road wear particles in the Seine watershed. Science of The Total Environment. 2019;646:1639–1649.

69. Bergmann M, Wirzberger V, Krumpen T, o.fl. High Quantities of Microplastic in Arctic Deep-Sea Sediments from the HAUSGARTEN Observatory. 2017. doi:10.1021/acs.est.7b03331

70. Jónsson S, Valdimarsson H. The flow of Atlantic water to the North Icelandic Shelf and its relation to the drift of cod larvae. ICES Journal of Marine Science. 2005;62(7):1350–1359. doi:10.1016/j.icesjms.2005.05.003

71. Astthorsson OS, Gislason A, Gudmundsdottir A. Distribution , abundance , and length of pelagic juvenile cod in Icelandic waters in relation to environmental conditions. 1994:529–541.

72. Cadle SH, Williams RL. Gas and particle emissions from automobile tires in laboratory and field studies. Journal of the Air Pollution Control Association. 1978;28(5):502–507. doi:10.1080/00022470.1978.10470623

73. Bogi Brynjar Björnsson, Gerður Stefánsdóttir og Jórunn Harðardóttir. Auðkennisnúmerakerfi íslenskra vatnshlota. Veðurstofa Íslands; 2012. https://www.ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Haf-og-vatn/Vatnatilskipun/Audkennisnumerakerfi_isl_vatnsholta.pdf.

74. OpenStreetMap contributors. Planet dump retrieved from https://planet.osm.org. 2017.

75. Tryggvi Þórðarson. Staða skólpmála Íslandi Stjórnsýsla fráveitumála. 2012. https://tinyurl.com/yyo5qywc.

76. Umhverfisstofnun. Samantekt um stöðu fráveitumála á Íslandi árið 2014. Umhverfisstofnun; 2017. https://tinyurl.com/y6b6x49y.

77. Magnusson K, Jörundsdóttir HÓ, Norén F, Lloyd H, Talvitie J, Setälä O. Microlitter in sewage treatment systems: A Nordic perspective on waste water treatment plants as pathways for microscopic anthropogenic particles to marine systems. Nordic Council of Ministers; 2016.

78. Pakula C, Stamminger R. Electricity and water consumption for laundry washing by washing machine worldwide. Energy Efficiency. 2010;3(4):365–382. doi:10.1007/s12053-009-9072-8