Frumplast í plastframleiðslu

Frumplast er ekki framleitt á Íslandi en er engu að síður flutt inn í þónokkru magni til framleiðslu á hinum ýmsu plasthlutum, t.d. fiskikörum, heitum pottum og trefjaplastbátum. Í þeim löndum þar sem frumplast er framleitt, t.d. Noregi og Svíþjóð, er gert ráð fyrir að losun í umhverfið sé í kringum 0,4%32 en aðrar forsendur eiga við í löndum þar sem frumplast er eingöngu innflutt79.

Fyrirtæki sem stunda plastframleiðslu í Danmörku notast eingöngu við innflutt frumplast líkt og hérlendis, aðallega frá Þýskalandi. Nokkur fyrirtæki í plastframleiðslu í Danmörku sem tóku þátt í átaki til að sporna við sóun á plastefni í framleiðsluferli sínu svöruðu því til að um 0,04% af þeirra hráefni færi til spillis en aðeins litlum hluta þess væri sópað í niðurföll eða 0,0013% hið mesta og engin losun væri beint í umhverfið79. Það má því áætla að hérlendis sé losun vegna frumplasts í plastframleiðslu frá 0,0005% (sem er um helmingur af þeirri tölu). Engin gögn eru tiltæk um losun plasts í frumgerðum hérlendis en viðmið OECD er að í versta falli fari um 0,01% efnisins til spillis við aðstæður þar sem lítil hætta er á sóun líkt og búast má við á Íslandi, helst er viðbúið að eitthvað efni glatist við flutning og meðhöndlun5.

Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra fyrir árið 2017 og 2016 voru flutt inn um 12.600 tonn af plasti árlega í frumgerðum á borð við upplausnir, þeytur, deig eða önnur form (tollskrárnúmer 3901-3914). Það má því áætla að losun vegna frumplasts í plastframleiðslu sé frá 0,0005-0,01% eða 0,06 - 1,3 tonn árlega. Þó hefur ekki verið gerð könnun á því og matið er því annars vegar byggt á tölum sem framleiðendur í Danmörku gefa upp og hins vegar mati OECD frá iðnaði sem er mjög smár hér á landi. Þetta á bæði við um leka og sóun innandyra hjá framleiðslufyrirtækjunum og í flutningum og meðhöndlun.

Heimildir

5. OECD. Emission Scenario Document on Plastics Additives. Í: OECD Series on Emission Scenario Documents.; 2009:141. http://tinyurl.com/y352gwu9.

32. Sundt P, Schulze P-E, Syversen F. Sources of microplastic-pollution to the marine environment. Mepex for the Norwegian Environment Agency. 2014.

79. Lassen C, Hansen SF, Magnusson K, o.fl. Microplastics: occurrence, effects and sources of releases to the environment in Denmark. 2015.