Niðurlag

Afdrif örplasts eru að miklu leyti enn ókunn. Það er vel þekkt að það tekur langan tíma fyrir plast að eyðast í umhverfinu og sérstaklega þar sem lítillar birtu gætir og hitastig er lágt. Sundrun plasts (í vatn og koltvísýring) er sjaldnast í það stórum stíl að vert sé á að minnast í skýrslu sem þessari. Það er þó talið að sólarljós geti valdið talsverðri sundrun á plastefnum í vegmerkingum og utanhússmálningu til dæmis svo að plastefnainnihald minnkar með tímanum. Það er vandmeðfarið að ætla að skilgreina örplastagnir út frá hlutfallslegu plastinnihaldi þeirra en það er þó ein af fjöldamörgum áskorunum sem rannsóknarfólk stendur frammi fyrir. Í þessari skýrslu er það gert í tilfelli utanhússmálningar, vegna líftíma hennar, en ekki hjólbarða til dæmis.

Sumar uppsprettur var ekki hægt að leggja mat á vegna skorts á gögnum eða rannsóknum á því hvernig plastrusl í umhverfinu verður að örplasti. Þar ber hæst að nefna losun örplasts frá veiðarfærum en einnig úr fjörum en erfitt er að áætla heildarmagn plasts í fjörum og hraða sundrunar þess í örplast. Fjörur geta verið líkt og mulningsvélar fyrir örplast ef stórt plastrusl er ekki fjarlægt úr þeim. Þá ber að nefna að þó svo að almennt sé talin minni hætta fyrir lífverur að innbyrða örplast miðað við stærra plast eru áhrif þess á lífverur og vistkerfi enn óráðin.