Neysluvara

Þvottur á fatnaði

Gerviefni9 eru algeng í fatnaði og er þá um að ræða þræði úr plastefnum eins og t.d. pólýester en með þeim nást fram ýmsir eiginleikar á borð við fjölbreytta áferð, útlit og notagildi en þar ber helst að nefna slitþol, teygjanleika og vatnsheldni. Við þvott fatnaðar losnar þónokkuð magn þráða úr fatnaðinum og á það bæði við um fatnað úr gerviefnum (plastþráðum) og náttúrulegum efnum á borð við ull, silki og bómull116,117.

Nælon (pólýamíð) var sett á markað í Bandaríkjunum árið 1939 og var fyrsta efnið unnið úr jarðefnaeldsneyti ætlað í vefnað118. Það greiddi leið fyrir önnur gerviefni sem fylgdu í kjölfarið eins og akríl 1949119 og pólýester 1951120 sem ruddu sér leið inn á heimsmarkaðinn á sjöunda áratugnum og voru loks framleidd í meira magni en bómull í lok tuttugustu aldarinnar121.

Plastþræðir gerviefna fara í skólp með niðurfalli þvottavéla til viðtakans, hvort sem það er rotþró122 eða sjórinn. Seyra sem notuð er í landgræðslu getur þar af leiðandi verið uppspretta örplastmengunar í jarðvegi122. Mismunandi er hversu mikið af örplastþráðum hefur mælst í rennsli frá skólphreinsistöðvum116,123 eftir kröfum og tilkostnaði á hverju svæði. Á Íslandi er ekki gert ráð fyrir síun örplastagna í frárennsli.

Til að áætla örplastmengun frá fataþvotti til sjávar á Íslandi er íbúafjöldi margfaldaður með áætluðum fjölda þvotta á ári og áætlaðri meðallosun örplastþráða við hvern þvott. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á fataþvotti heimila víða um heim árið 201078 eru þvegnir 165 þvottar að meðaltali á heimili á Íslandi. Áætlað er að hver þvottur í Vestur-Evrópu sé að meðaltali 3-4 kg og að hlutfall gerviefna í hverjum þvotti sé á bilinu frá 30-50%78. Fyrir hvert kíló af þvegnum fötum úr gerviefnum losna 12-640 mg af örplastþráðum115. Fjöldi heimila á Íslandi er um það bil 120 þúsund og samkvæmt neyslukönnun 2013-2016 er fjöldi í heimili 2,9.10

Tafla 4.6: Áætluð árleg losun örplasts frá þvotti í hafið á Íslandi.
Eining
Fjöldi þvotta á ári 165 Þvottar
Fjöldi heimila 120.000 Heimili
Þyngd þvotta 3-4 kg
Þyngd örplasts fyrir hvert kg gerviefna 12-640 mg
Hlutfall gerviefna í þvotti 30-50 % gerviefni

Áætluð heildarlosun örplasts frá þvotti á Íslandi á ári er því 8,2-32 tonn, með þeim fyrirvara að gögnin eru komin til ára sinna og gerviefni verða æ algengari í þvotti ásamt því að losun örplasts við hvern þvott er ekki föst stærð heldur breytileg eftir hversu notuð fötin eru. Tölurnar sem hér er stuðst við um örplastlosun frá þvotti á fatnaði eru frá því 2010124 en þar sem fatnaður úr náttúrulegum efnum er á undanhaldi og notkun gerviefna í fatnaði eykst ár hvert er líklegt að hér sé um vanmat að ræða.

Mikið af gerviefnum er á vinnustöðum og á heimilum fólks, alls konar vefnaður, teppi og mottur, áklæði utan um sófa og stóla, tuskudýr og fleira er innadyra sem ekki er minnst á í þessari skýrslu. Ryk innanhúss getur talist til uppsprettu örplasts í hafið, sérstaklega berist það með í niðurföll en ætla má að innanhúsryk endi að miklu leyti í sorpi.

Skósólar

Skósólar eru gerðir úr gervigúmmíblöndu (nánar til tekið elastómerum sem eru ekki alltaf taldar til plasts), pólývínyl klóríð (e. PVC) eða pólýúretani125 sem slitna við notkun skónna. Í danskri samantekt79 var gerð tilraun til að meta örplastlosun frá skósólum í umhverfið út frá evrópsku mati á losun þalata126 og umreiknað fyrir pólývínylklóríð (sem er plastefni). Þar er gróflega áætlað að slit skósóla sé á bilinu 100-1000 tonn árlega í Danmörku. Miðað við að íbúafjöldi Íslands sé um 6% af íbúafjölda Danmerkur má áætla gróflega heildarlosun örplasts frá skósólum á Íslandi. Þrátt fyrir að ólík menning og veðurfar geri beinan samanburð erfiðan má búast við því að hér sé um nokkur tonn að ræða sem geti borist til sjávar með ofanvatni.

Snyrtivörur

Örplast í snyrtivörum hefur verið talsvert í almennri umræðu á síðustu árum. Þekktustu áhrif sem fengin eru fram með örplastögnum í snyrtivörum eru skrúbbáhrif í sápum, andlitsskrúbbar og fótaskrúbbar. Þessar plastagnir hafa margskonar fleiri verkanir en engan möguleika á að vera endurunnar og berast að mestu beint í hafið eftir notkun. Það er þó svo að örplast í snyrtivörum telst aðeins vera smávægileg uppspretta á heildina litið. Hlutfall örplasts getur verið allt á milli 1%-90% í ýmsum vörum og svo dæmi séu tekin eru það raksápur, ungbarnavörur, svitalyktareyðir, kinnalitir, hárlitunarefni og sjampó127.

Í Evrópusambandsríkjunum er áætlað að um 800 tonnum af örplasti sé árlega bætt í snyrtivörur og þar af er um helmingur í handsápum sem eru ætlaðar til nota í iðnaði (t.d. á vélaverkstæðum)128. Svipaðar tölur koma frá nokkrum skandinavískum samantektum eða undir 10 grömmum á ári á mann32,79,115.

Áætluð heildarlosun örplasts í hafið frá snyrtivörum á Íslandi er því 0,34-3,4 tonn.

Haglaskot

Haglaskot í dag hafa yfirleitt tvo hluta með eða úr plasti: Skothylkið/patrónuna, sem er að hluta úr plasti, og forhlaðið sem er eingöngu úr plasti. Forhlaðið er staðsett milli púðurs og hagla inni í skothylkinu en einnig eru til skot sem innihalda ekkert plast, líkt og var eingöngu tilfellið fyrir fjöldaframleiðslu plasts, en notkun þeirra á Íslandi er lítil.

Í hvert skipti sem hleypt er af skoti fylgir forhlaðið (~2,0 grömm) höglunum út um hlaup byssunnar og týnist það yfirleitt út í umhverfið, nema á skotsvæðum þar sem stór hluti er hreinsaður upp reglulega. Utan skotsvæða er eitthvað um að forhlöð séu tínd upp en gera má ráð fyrir að það hlutfall sé lítið. Skothylkin sitja hins vegar eftir í hlaupinu (í tvíhleypum) eða falla til hliðar (úr hálfsjálfvirkum haglabyssum) og er því auðvelt að tína upp líkt og ábyrgir skotveiðimenn stunda af metnaði. Eitthvað er um að þau séu skilin eftir á víðavangi en að því sögðu er einnig algengt að skotveiðimenn týni upp skothylki eftir aðra.

Að áætla magn forhlaða sem fara í umhverfið er því nokkuð einfalt ef fjöldi skota er þekktur. Erfiðara er hins vegar að áætla magn skothylkja sem enda í umhverfinu og er með fyrirliggjandi gögnum ekki hægt að álykta nánar en að líklega sé um minnihluta sé að ræða.

Samkvæmt óformlegum heimildum innan skotveiðigeirans má áætla að fjöldi notaðra haglaskota, bæði fyrir veiði og leirdúfur, hafi árið 2017 verið u.þ.b. 1.600.000 og hafi árið 2018 verið upp undir 2.000.000. Þessi aukning sé rakin til aukinna vinsælda og sölu leirdúfuskota en skiptingin í ár sé líklega ~1.400.000 leirdúfuskot (yfirleitt 35 grömm) og ~600.000 veiðiskot (yfirleitt 55 grömm). Af því má álykta að árið 2017 hafi leirdúfuskot gróflega verið ~1.000.000 og veiðiskot ~600.000, með fyrirvara um óþekkt skekkjumörk. Séu þessar tölur bornar saman við gögn frá Tollstjóra voru árið 2017 flutt inn 36,8 tonn af skothylkjum fyrir haglabyssur (tollskrárnúmer 9306.2100) og sé miðað við algengar þyngdir haglaskota ( 35-55 grömm) fást tölur af sömu stærðargráðu. Því má ætla að þessar tölur séu lýsandi, með áðurgreindum fyrirvara um ótilgreind skekkjumörk.

Heildarmagn notaðra forhlaða árið 2017 var því 3,2 tonn en þar sem ákveðið hlutfall er notað á skotsvæðum, hvar hægt er að hreinsa forhlöðin upp, er ljóst að einungis hluti forhlaða endar í umhverfinu þrátt fyrir að nánast öll forhlöð í skotveiði glatist í umhverfið. Hlutfall þeirra forhlaða sem týnast í umhverfið er því erfitt að meta án frekari rannsókna en þrátt fyrir það ríkir nokkur vissa um stærðargráðuna.

Áætluð heildarlosun örplasts frá haglaskotum á Íslandi árið 2017 er því 1-3 tonn, með fyrirvara um ofangreinda óvissuþætti. Ekki er unnt að áætla afdrif örplasts frá haglaskotum að svo stöddu.

Heimildir

32. Sundt P, Schulze P-E, Syversen F. Sources of microplastic-pollution to the marine environment. Mepex for the Norwegian Environment Agency. 2014.

78. Pakula C, Stamminger R. Electricity and water consumption for laundry washing by washing machine worldwide. Energy Efficiency. 2010;3(4):365–382. doi:10.1007/s12053-009-9072-8

79. Lassen C, Hansen SF, Magnusson K, o.fl. Microplastics: occurrence, effects and sources of releases to the environment in Denmark. 2015.

115. Magnusson K, Eliasson K, Fråne A, o.fl. Swedish sources and pathways for microplastics to the marine environment. IVL Svenska Miljöinstitutet: Stockholm, Sweden. 2016.

116. Magnusson K. Mikroskräp i avloppsvatten från tre norska avloppsreningsverk. IVL Svenska Miljöinstitutet: Stockholm, Sweden. 2014.

117. Magnusson K, Wahlberg C. Mikroskopiska skräppartiklar i vatten från avloppsreningsverk. Rapport NR B. 2014;2208:33.

118. American Chemical Society. The first nylon plant. Office of Public Outreach. 1995:1–8. doi:http://dx.doi.org/10.1016/j.joei.2015.04.005

119. Masson J. Acrylic Fiber Technology and Applications. Taylor & Francis; 1995. https://books.google.no/books?id=heEP1VIKvowC.

120. Brunnschweiler D, Hearle J. Polyester, fifty years of achievement. 1993.

121. Shen L, Patel MK. LIFE CYCLE ASSESSMENT OF MAN-MADE CELLULOSE FIBRES World fibre production 1920-2005. World. 2012;88(2010):1–59.

122. Mahon A, O’connell B, Healy M, o.fl. Microplastics in sewage sludge: effects of treatment. Environmental Science & Technology. 2016;51(2):810–818.

123. Napper IE, Thompson RC. Release of synthetic microplastic plastic fibres from domestic washing machines: effects of fabric type and washing conditions. Marine pollution bulletin. 2016;112(1-2):39–45.

124. Pakula C, Stamminger R. Electricity and water consumption for laundry washing by washing machine worldwide. Energy Efficiency. 2010;3(4):365–382.

125. Karak N. Fundamentals of polymers: raw materials to finish products. PHI Learning Pvt. Ltd.; 2009.

126. Pakalin S, Cosgrove O, Aschberger K. European Union risk assessment report bis(2-ethylhexyl)phthalate (DEHP).; 2008. doi:10.2788/80862

127. Leslie HA. IVM Institute for Environmental Studies Review of Microplastics in Cosmetics. 2014;476(July).

128. Scudo A, Liebmann B, Corden C, Tyrer D, Kreissig J, Warwick O. Intentionally added microplastics in products. 2017;(October):1–220. http://ec.europa.eu/environment/chemicals/reach/pdf/39168 Intentionally added microplastics - Final report 20171020.pdf.


  1. Manngerð efni, annars vegar svokölluð syntetísk og hins vegar svokölluð gerviefni samkvæmt skilgreiningu í tollskrá: Tilbúnar trefjar í fatnaði: Syntetísk (e. synthetic) efni: Stutttrefjar og þræðir úr lífrænum fjölliðum sem framleiddar eru með fjölliðun lífrænna einliða til framleiðslu á fjölliðum, svo sem pólýamíða, pólýestera, pólýólefína eða pólýúretana, eða með kemískri umbreytingu á fjölliðum framleiddum með þessari aðferð (t.d. póly(viníl alkóhól) framleitt með vatnsrofi á pólý (vínyl asetat)). Gerviefni (e. artificial): Með upplausn eða kemískri umbreytingu náttúrulegra lífrænna fjölliða (t.d. sellulósa) til framleiðslu á fjölliðum svo sem koparammoníumrayoni (kúpró) eða viskósarayoni eða með kemískri umbreytingu náttúrlegra lífrænna fjölliða (t.d. sellulósa, kaseíns og annarra prótína eða þörunga) til framleiðslu á fjölliðum svo sem sellulósaacetati eða algínötum.111

  2. Tölur fengnar af vef Hagstofunnar. (Mannfjöldi)[http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__2_byggdir__sveitarfelog/MAN02001.px/], (fjöldi heimila[http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__manntal__1manntalfjolsk/CEN01050.px/]), (fjöldi í heimili[http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__visitolur__4a_neyslarannsokn/VIS05302.px/])