Útisvæði

Gervigrasvellir

Örplastmengun frá gervigrasvöllum er tvenns konar. Annars vegar vegna slits gervigrassins sjálfs og hins vegar vegna innfyllingar. Innfylling er það kallað þegar bætt er á gúmmíkurlið í gervigrasinu. Nokkrar gerðir gervigúmmís eru notaðar sem innfyllingarefni, algengast er að notað sé dekkjakurl en einnig er notast við annars konar dýrara efni. Kurlið er fínna en 5 mm og telst því til örplasts miðað við tilgang þessarar skýrslu. Viss hluti þess dreifist í kringum vellina með vindi, undir skóm og í fatnaði og einnig með snjómokstri eða skolast burtu með affallsvatni113.

Allt að 140 tonn af gúmmíkurli geta verið í gervigrasinu á velli í fullri stærð113 en sé miðað við að um 30 mm lag af gúmmíkurli fínna en 5 mm vegi 426 kg/m3114 þá ættu að geta verið á milli 12 og 13 kg af gúmmíkurli á hverjum fermetra af gervigrasi. Misjafnt er eftir heimildum hve miklu innfyllingarefni er bætt á gervigrasvelli árlega en tölur frá 1 - 5% liggja innan marka sem stuðst er við í þessari skýrslu79,108,115.

Samkvæmt Knattspyrnusambandi Íslands eru gervigrasvellir á Íslandi 197 talsins: 7 keppnishús, 26 keppnisvellir, 12 æfingavellir og smærri hús, 111 sparkvellir KSÍ og 43 aðrir sparkvellir. Alls eru þetta rúmlega 400.000 fermetrar, þar af um 13.000 m² með sandi sem innfyllingarefni en svart gúmmíkurl og annað iðnaðargúmmí er annars notað.

Til að meta losun innfyllingarefnis (gúmmíkurls) væri best að hafa nákvæm gögn um árlega áfyllingu á öllum völlum landsins en þau gögn eru ekki fyrirliggjandi og er því hér stuðst við áætlaðar tölur. Skv. Magnussen o.fl. 2014116 er mælt með því að á keppnisvöllum sé árlega bætt við 3-5 tonnum af fylliefni (420-700g/m2/ár miðað við 106x71 m völl). Á flestum völlum eru þó ekki gerðar sömu kröfur og á keppnisvöllum og má því búast við að losun sé oft á bilinu 2-3 tonn á ári (þ.e. 280-420g/m2/ár) eða jafnvel minni, einkum á minna notuðum völlum115.

Sumir vellir eru gerðir með gúmmímottu undir gervigrasinu sem minnkar þörfina á innfyllingu um allt að 50% og þetta á við um helming íslenskra gervigrasvalla í fermetrum talið. Einnig er líklegt að kurlið þjappist niður í gervigrasið og því fer ekki allt innfyllingarefni til spillis út fyrir vellina.

Árlegri notkun dekkjakurls er skipt niður eftir gerðum leikvalla og miðast við að mest fari á keppnisvelli árlega en engu sé bætt á litla sparkvelli þar sem þeir voru flestir byggðir fyrir tiltölulega stuttu síðan og í millitíðinni skapaðist mikil umræða um mögulega skaðsemi innfyllingarefna og því beðið með að bæta á flesta þessa velli. Æfingavellir og smærri hús eru með losunartölur þarna mitt á milli.

Miðað við gögn frá Lassen79 og FIFA tekin saman af Hann108 er gervigrasið sjálft u.þ.b. 0,8 - 1,4 kg/m2 og árlegt slit á bilinu 0.5 - 0.8%. Sé miðað við 400.000 fermetra af gervigrasi á Íslandi er losun úr gervigrasinu sjálfu því undir hálfu tonni á ári.

Áætluð heildarlosun örplasts í umhverfið frá gervigrasvöllum á Íslandi árið 2017 er því 3-11 tonn, með þeim fyrirvara að matið byggir á almennum forsendum en ekki raunverulegum mælingum á áfyllingum gervigrasvalla á Íslandi. Erfitt er að meta hver afdrif þess eru og hve mikið fer í fráveitukerfi. Gúmmíkurlið festist í klæðnaði og undir skóm og getur borist í hafið í gegnum ræsi og frá affalli þvottavéla. Í breskri rannsókn108 var áætlað að um 5% innfyllingarefnis lendi í fráveitukerfum við vellina og önnur 5% lendi í fráveitu frá búningsklefum og heimilum. Annars fari 90% efnisins í förgun eða jarðveg. Miðað við þær forsendur má meta það sem svo að allt að 10% geti borist með fráveitu í hafið eða 0,3 - 1,1 tonn.

Skólalóðir og leiksvæði

Frá aldamótum hefur orðið mikil aukning á því að skólalóðir, leikskólalóðir og opin leiksvæði hafi fleti úr mjúkum gerviefnum á borð við gervigras, tartan (líkt og á frjálsíþróttahlaupabrautum), gúmmíhellur og gúmmígrasmottur. Þetta er gert til að skapa börnum öruggara umhverfi en allir þessir fletir innihalda gervigúmmí og verða þeir fyrir sliti vegna notkunar og veðrunar sem veldur losun örplasts í umhverfið. Ekki liggja fyrir gögn um örplastslosun þeirra á Íslandi en notkun og veðuraðstæður hafa mikil áhrif á umfang hennar.

Samkvæmt upplýsingum frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar eru 39 grunnskólar, 75 leikskólar og 256 opin leiksvæði á þeirra vegum og umfang fyrrgreindra gerviefna á skólalóðum sé um 400-800 m², leikskólalóðum um 200-400 m² og opnum leiksvæðum 150-300 m². Flatarmál gerviefna í Reykjavík er þ.a.l. 69.000-138.000 m² og miðað við íbúafjölda Reykjavíkur 1. janúar 2017 (námundað að tugþúsundi, þ.e. 120.000) eru þetta 0,58-1,15 m² á hvern íbúa. Sé þetta hlutfall heimfært á íbúafjölda Íslands 1. janúar 2017 (námundað að tugþúsundi, þ.e. 340.000), eru gerviefni skólalóða og leikvalla á landinu 195.500-391.000 m² en þetta eru ónákvæmar tölur þar sem ekki liggur fyrir hvort hlutfallið í Reykjavík eigi við um önnur sveitarfélög á landinu. Til að áætla losun örplasts frá skólalóðum og leiksvæðum þarf einnig að vita hversu mikið slitið er, annaðhvort á ársgrundvelli eða líftíma mismunandi gerða gúmmíundirlags, en þau gögn eru ekki fyrirliggjandi. Ef gervigras á knattspyrnuvöllum eyðist um 0,5 - 0,8% vegna notkunar má ætla að á leiksvæðum sé hlutfallið af svipaðri stærðargráðu en þó lægra en á íþróttavöllum. Miðað við 0,1 - 0,5% má áætla að slit á gúmmíundirlagi á leikvöllum sé 0,2 - 2 tonn árlega.

Heimildir

79. Lassen C, Hansen SF, Magnusson K, o.fl. Microplastics: occurrence, effects and sources of releases to the environment in Denmark. 2015.

108. Hann S, Cole G, Hann S. Investigating options for reducing releases in the aquatic environment of microplastics emitted by ( but not intentionally added in ) products Final Report Approved by. 2018;(February).

113. Wredh G. Miljö- och hälsorisker med konstgräsplaner. 2014. http://www.diva-portal.org/smash/get/diva2:738260/FULLTEXT01.pdf.

114. Gamalath P, Weerasinghe P, Nanayakkara A. Use of Waste Rubber Granules for the Production of Concrete. Í: The 7th International Conference on Sustainable Built Environment.; 2016. https://www.irjet.net/archives/V6/i3/IRJET-V6I31227.pdf.

115. Magnusson K, Eliasson K, Fråne A, o.fl. Swedish sources and pathways for microplastics to the marine environment. IVL Svenska Miljöinstitutet: Stockholm, Sweden. 2016.

116. Magnusson K. Mikroskräp i avloppsvatten från tre norska avloppsreningsverk. IVL Svenska Miljöinstitutet: Stockholm, Sweden. 2014.