Umhverfi
Plast í fjörum
Niðurbrot plastrusls gerist hve hraðast í orkumiklum kerfum líkt og fjörum en plastrusl í hafi og í fjörum er álitið vera með stærstu uppsprettum örplasts í hafinu37. Ekki er hægt að meta magn af örplasti sem berst frá niðurbroti plastsrusls í fjörum í hafið. Magn rusls er ekki gott að áætla og svo vantar gögn um það hve hratt plasthlutir mást og eyðast í fjörum og sundrast frá stærra plasti í örplastsagnir.
Skipulagðar hreinsanir á Íslandi eru framkvæmdar af félagasamtökunum Bláa hernum og fleirum. Samkvæmt talsmanni Bláa hersins er um eitt tonn af plastrusli á hverjum kílómetra af strandlengju sem þau hreinsa. Veiðarfæri og umbúðir úr plasti eru yfir 95% af þyngd hlutanna sem finnast. Veiðarfærin geta verið stórar einingar upp á hundruð kílóa en umbúðirnar eru oft smærri ílát fyrir neysluvöru.
Vaktanir á íslenskum fjörum eru gerðar eftir OSPAR samkomulaginu en þar eru 100 metra fjörukaflar teknir fyrir og skrásettur fjöldi hluta og hvers eðlis þeir eru en þeir eru ekki vigtaðir. Ábyggilegt er að við staðarval sé tekið mið af sjáanlegri mengun, sérstaklega hjá Bláa hernum en einnig hjá OSPAR og því eru gögnin þeirra skekkt í átt að meiri mengun en almennt finnst í íslenskum fjörum. Skráðar hafa verið 18 hreinsanir á fimm 100 metra strandlengjupörtum á Íslandi í OSPAR gagnagrunninn131. Niðurstöður þeirra sýna að plast er meirihluti þeirra hluta sem finnast í fjörum eða um 83% (sjá mynd 4.9).
Í flokkunum tengdum matvælaframleiðslu og umhverfi var hve minnstar upplýsingar að finna um uppsprettur örplasts. Þó svo að einhverjar rannsóknir á magni og niðurbroti plasts í sjávarumhverfinu hafi verið framkvæmdar2 þá er þekkingin til að meta örplastlosun í fjörum hérlendis enn ekki næg. Það er þó eflaust tilfinnanlegt magn. Svipaða sögu er að segja af heyrúlluplasti og veiðarfærum en magn þess sem er flutt inn og fært til endurvinnslu er ágætlega þekkt en afdrif þess sem lendir í umhverfinu eru ókunn enn.
Sigvatn frá sorpurðunarstöðvum
Urðaður heimilisúrgangur er um 60.000 tonn á ári132 á ýmsum urðunarstöðvum á Íslandi. Tugir urðunarstöðva eru vítt og breitt um landið, sumar þeirra eru ekki lengur í notkun en sigvatn rennur frá þeim engu að síður. Stærsta urðunarstöðin á Álfsnesi í Reykjavík er með leyfi til að taka við 120.000 tonnum á ári en aðrar stórar stöðvar eru í Glerárdal í Eyjafirði og í Stekkjavík við Húnaflóa (báðar um 20.000 tonn) en við Ölfusá var stöð þar til nýlega með leyfi fyrir 30.000 tonnum. Aðrar minni stöðvar hafa leyfi fyrir nokkrum hundruðum eða þúsundum tonna.
Rannsóknir á örplastinnihaldi í sigvatni benda ekki til þess að það sé mikilvæg uppspretta örplasts133. Talningar á örplastsögnum úr sigvatni nokkurra urðunarstöðva á Íslandi voru til dæmis lægri en talningar úr skólpi133. Í stærstu urðunarstöðinni á Álfsnesi mældist örplast í mestu magni (frá 50-5000 μm að stærð) og var árleg losun metin á bilinu 0,002 - 177 kg133.
Heimildir
2. Andrady AL. The plastic in microplastics: A review. Marine Pollution Bulletin. 2017;119(1):12–22. doi:10.1016/j.marpolbul.2017.01.082
37. Andrady AL. Microplastics in the marine environment. Marine pollution bulletin. 2011;62(8):1596–1605.
131. OSPAR, Surveyed beach locations. http://www.mcsuk.org/ospar/map. Sótt febrúar 27, 2019.
132. Statistics Iceland. Innflutningur eftir tollskrárnúmerum 2016-2018, kafli 1-40. 2019. https://px.hagstofa.is:443/pxis/api/v1/is/Umhverfi/urgangur/UMH04102.px.
133. Praagh M van, Hartman C, Brandmyr E. Microplastics in Landfill Leachates in the Nordic Countries.; 2018:50. doi:10.6027/TN2018-557