Málning

Gera þarf könnun á innflutningi málningar og efna til framleiðslu á málningu þar sem óvissa er um hlutfallslegt magn ólíkrar málningar, til dæmis skipa- og húsamálningar og málningar með misháu fjölliðuinnihaldi hérlendis. Skýrsluhöfundum er ekki kunnugt um hvernig eftirliti með slippum er háttað en við matið á örplastlosun frá þeim var stuðst við tölur frá Hollandi89 en engar samantektir á þeirra starfsemi fengust afhentar. Mesti munur á mögulegri uppsprettu og losun í hafið var frá stærstu slippunum en að sögn starfsmanna nokkurra slippa er nánast allt hreinsað upp sem fellur til vegna viðhalds skipa.

Utanhússmálning

Flestar gerðir málningar eru með syntetískum fjölliðum sem bindiefni109 og vitað er að málning slitnar og veðrast. Mest er innflutt af akrýl- og vínylblandaðri málningu til landsins til notkunar innanhúss og utan en bæði þessi efni eru plastefni. Utanhússmálning flagnar af og veðrast að einhverju leyti en aðallega losnar hún af við háþrýstiþvott og getur borist til hafs með fráveitukerfum og vindum. Það skal tekið fram að hluti plastefna í utanhússmálningu sundrast vegna útfjólublárrar geislunar og vatnsrofs og berst því ekki í umhverfið sem örplast. Á líftíma málningar á veggjum og þökum utanhúss brotnar allt að 67% einliða plastefnanna niður í koltvísýring, vatn og nitur108 og er sá hluti því dreginn frá heildarlosun örplasts frá utanhússmálningu.

Markaðshlutur innimálningar gagnvart útimálningu er ólíkur milli rannsókna í mismunandi löndum. Í Danmörku og Svíþjóð var útimálning metin 63% af heildarmagni en aðeins 27% í Evrópusambandsríkjunum108. Í norsku örplastsskýrslunni má umreikna að þar sé hlutfallið um 35%32. Munurinn á milli norðurlandanna og Evrópusambandsríkjanna getur skýrst af því að meiri veðrun í norðlægari byggðum krefjist meiri útimálningar108 en ólík menning spilar einnig inn í. Á Íslandi er veðrun útimálningar einnig mikið vandamál sem rökstyður samanburð við hin Norðurlöndin en hér er bygginarstíll þó um margt ólíkur þeim.

Timburklædd hús þarf að mála oftar en steinhús. Á Íslandi er lítið um timburklædd hús en hér eru aftur á móti nánast engar ómálaðar múrsteinsbyggingar sem eru mjög algengar í Skandinavíu og víðar Evrópu. Þrátt fyrir þónokkurn fjölda steinaðra bygginga hér á landi (um 3000 byggingar um síðustu aldamót110) sem ætti ekki að þurfa að mála eru flest hús máluð og ólíkt nágrannaþjóðunum mála Íslendingar næstum öll þök.

Útimálun er framkvæmd vegna nýbygginga eða slits, bæði á þökum og veggjum en innimálun er hins vegar framkvæmd við eigendaskipti og nýbyggingu. Hlutfall sölu útimálningar hjá innlendum söluaðilum er mishátt eftir því hvort viðskiptin eru við fagfólk eða heimili. Hjá stórum ónefndum söluaðila, sem afgreiðir heimili að mestu, er hlutfall útimálningar hérlendis undir 30%. Það er hærra hjá öðrum stórum söluaðila (yfir 60%) sem afgreiðir að mestu fagfólk.

Innflutt málning árin 2016 og 2017 var 3.15 þúsund tonn á ári111 eða um 9,3 kg á mann (hér er ekki tekið með efni sem notuð eru til framleiðslu á málningu hérlendis). Þetta er af sömu stærðargráðu og mat Hann108 um málningarnotkun á mann í Evrópusambandsríkjunum (um 8,2 kg). Hér er átt við innflutta tilbúna málningu en innlend framleiðsla er undanskilin.7

Losun örplasts frá utanhússmálningu hefur ekki verið könnuð beint og er þetta mat því aðeins byggt á fræðilegum grunni. Veðrun og slit málningar veldur losun á syntetískum fjölliðum út í umhverfið þar sem þær verða fyrir útfjólublárri geislun og geta brotnað niður að miklu leyti. Miðað við eftirfarandi forsendur má áætla örplastmengun frá útimálningu með eftirfarandi hætti:

  • 27-63% innfluttrar málningar séu notuð á fleti utanhúss (pers. heimildir)
  • 20% af innihaldi málningar séu plastefni108
  • 67% plastefnanna sundrist vegna veðrunar (og reiknist því ekki með)108
  • 1.6% utanhússmálningar flagni af (vegna veðrunar eða háþrýstiþvottar) sem örplast108
  • 2.5% af eftirstandandi málningu losni sem örplast vegna veðrunar108
Tafla 4.4: Áætluð árleg losun örplasts í hafið frá útimálningu á Íslandi.
Innflutt málning
Hlutur utanhúss-málningar
Syntetískar fjölliður
Sundrun og Niðurbrot
Eftirstandandi málning
Háþrýsti-þvottur og flögnun
Uppspretta v/slits
Tonn % Tonn % % Tonn % Tonn % Tonn
3150 27-63 850-2000 20 67 740-1720 1,6 11,8-27,5 2,5 18,2-41,2

Áætluð uppspretta örplasts frá utanhússmálningu á ári, vegna háþrýstiþvotta og flögnunar, slits og veðrunar, er því um 30-70 tonn. Þar sem um 70% af flatarmáli bygginga er innan þéttbýlis8 er aftur farið eftir áætluðu hlutfalli ofanvatns sem rennur í ræsi (60%)89. Byggingar utan þéttbýlis þar sem fráveita er nánast engin eru ekki hafðar með. Áætluð losun örplasts í hafið frá útimálningu er því 12-29 t.

Innimálning

Innimálning verður ekki fyrir mikilli veðrun og hvert lag er málað yfir það sem fyrir var án þess að það sé þvegið af. Örplastmengun vegna málningar innandyra verður því aðallega vegna þrifa á penslum. Sú málning berst beint í hafið um fráveitukerfi og má reikna með að hún sé um 1,6 % af innkeyptri innimálningu og fjölliðuinnihald hennar sé um 20 %108.

Tafla 4.5: Áætluð árleg losun örplasts í hafið frá innanhússmálningu á Íslandi.
Innflutt málning
Hlutur innanhúss-málningar
Plastefni
Ónýtt málning
Losun vegna skolunar
Tonn % Tonn % Tonn % Tonn
3150 37-73 1165-2300 20 230-460 3-15 3,2-7,1

Áætluð heildarlosun örplasts frá innimálningu á ári 3,2-7,1 tonn.

Ekki er öll málning með plastbindiefnum og einnig eru algeng bindiefni í málningu með vatnssækna eiginleika og brotna niður í náttúrunni á misjafnan máta. Til þess að fá nákvæmara mat á losun örplasts frá innimálningu er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um ólík bindiefi í málningu og kannað verði til hlítar hve mikið af syntetískum fjölliðum til framleiðslu málningar er flutt inn í gegnum Tollstjóra. Einnig þyrfti að gera markaðsrannsókn þar sem kannað er hve mikill hluti málningar er seldur til fagfólks eða heimila þar sem að á heimilum eru verkfæri gjarnan skoluð oftar fyrir hvern lítra af málningu heldur en hjá fagfólki.

Mynd 4.6: Áætluð árleg heildarlosun örplasts frá húsamálningu er 15,2-36,1 tonn.

Skipamálning

Í þessari skýrslu er sú nálgun valin að áætla magn skipamálningar út frá fjölda og stærð skipa. Skip eru með marga málaða fleti sem erfitt er að henda reiður á og því er hér aðeins stikað á stóru en til frekari einföldunar verða aðeins fiskiskip könnuð þar sem önnur skip eru mjög lítill hluti af skipaflota landsins. Ekki hefur verið framkvæmd markaðskönnun hjá söluaðilum til að meta magn skipamálningar frekar en annarrar málningar.

Fjórir stórir slippir eru á landinu, þar af þrír á SV-landi og einn á Akureyri. Minni slippir, eða dráttarbrautir sem geta tekið inn smærri báta, eru hér og þar um landið. Í slippum landsins eru nokkrir tugir skipa þjónustaðir árlega. Hver sem fær þjónustu hjá slippum getur haft sína hentisemi varðandi þykkt málningarlagsins og gerð málningar og sumir skaffa málningu sjálfir en aðrir kaupa af slippunum. Í stóru slippunum eru skip sprautumáluð en langflestir minni bátar eru málaðir með rúllum og penslum af eigendum þeirra. Þeir eru oft hífðir upp og málaðir nálægt bryggju. Mörg íslensk skip eru máluð í útlöndum og hérlendir slippir taka erlend skip á móti.

Skip í slipp í höfninni á Skagaströnd. Nokkrar smærri dráttarbrautir eru hér og þar um landið sem þjónusta eigendur smárra til meðalstórra skipa. Ólík lögun skipanna og byggingarefniviður gerir það erfitt um vik að áætla magn skipamálningar.

Mynd 4.7: Skip í slipp í höfninni á Skagaströnd. Nokkrar smærri dráttarbrautir eru hér og þar um landið sem þjónusta eigendur smárra til meðalstórra skipa. Ólík lögun skipanna og byggingarefniviður gerir það erfitt um vik að áætla magn skipamálningar.

Málun er tíðust á botninum undir vatnslínunni og á þann flöt er notuð sérstök málning til varnar ásætum sem annars myndu auka viðnám skipsskrokksins. Skip eru máluð á þriggja til fimm ára fresti en botninn er gjarnan málaður annað hvert ár eða árlega. Þegar bátar eru háþrýstiþvegnir losna málningarflyksur sem geta borist í hafið. Hlutfall plastefna getur verið milli 30% og 80% (skv. tækniblöðum frá Sérefnum ehf.) og allt að 40% fellur til við háþrýstiþvott89. Það er þó misjafnt hve mikið losnar af og samkvæmt heimildarmönnum frá slippunum sjálfum væri nærri lagi að segja að um 10% málningar sé þvegin af við háþrýstiþvott.

Íslenski skipaflotinn er að mestu leyti fiskiskip og í Skipaskrá eru upplýsingar um lengd og rúmmál skipa. Þær upplýsingar eru aðgengilegar á vef fiskistofu fyrir þau skip sem eru með gilt veiðileyfi en það voru alls 1146 skip árið 2018 og þar af 972 bátar undir 15 að lengd. Til að áætla flöt skipaflotans undir vatnslínu má notast við aðhvarfsjöfnuna:

\[\begin{equation} Flötur = a*Brúttótonn^b \tag{4.1} \end{equation}\]

(þar sem a = 15,8 ± 0,25 og b = 0,602 ± 0,002 og R2 = 0.92) frá Moser (2016)112 en aðhvarfsjafnan er byggð á mælingum á um 28.000 skipum. Samkvæmt jöfnunni er heildarflötur íslenskra fiskiskipa undir vatnslínu um 169.000 m2. Algengt er að í öryggisleiðbeiningum fyrir botnmálningu sé reiknað með um 7 m2/L og því má áætla að um 20.000 L af botnmálningu þurfi á skipaflotann hérlendis eða um 36 tonn miðað við lauslega áætlun á þyngd málningarinnar um 1,5 kg/L. Aðhvarfsjafnan fellur misvel að bátum eftir lögun þeirra. Hún vanáætlar t.d. botnflöt lítilla plastbáta (s.s. Sómabáta) sem eru algengir hérlendis en út frá henni má þó sjá að meirihluti botnmálningar fer almennt á stór skip þó þau séu svo fá (sjá mynd 4.8).

Samband skipslengdar og botnflatar. Kökuritið sýnir hlutfall botnflatar íslenskra fiskiskipa í þremur stærðarflokkum: Undir 15 metra löng skip, milli 15 og 30 metra löng og yfir 30 metra löng. Fengið með jöfnu frá Moser (2016).Samband skipslengdar og botnflatar. Kökuritið sýnir hlutfall botnflatar íslenskra fiskiskipa í þremur stærðarflokkum: Undir 15 metra löng skip, milli 15 og 30 metra löng og yfir 30 metra löng. Fengið með jöfnu frá Moser (2016).

Mynd 4.8: Samband skipslengdar og botnflatar. Kökuritið sýnir hlutfall botnflatar íslenskra fiskiskipa í þremur stærðarflokkum: Undir 15 metra löng skip, milli 15 og 30 metra löng og yfir 30 metra löng. Fengið með jöfnu frá Moser (2016).

Þar sem það eru engin neðri mörk á stærð báta sem geta farið í slipp eru mörkin óljós en hér er skipum skipt í 3 stærðarflokka: Undir 15 metra löng skip, milli 15 og 30 metra löng og yfir 30 metra löng. Litlir bátar, undir <10 metrar á lengd, eru sjaldnast settir í slipp og reiknum við því með að þeir séu að mestu leyti málaðir af eigendum uppi á landi og flyksurnar af háþrýstiþvotti á þeim fari í jarðveginn í mismikilli fjarlægð frá sjó. Stærri bátar og skip eru tekin í slipp niðri við sjó.

Smábátar

Smábátar eru bátar undir 15 metrum að lengd. Smábátar nota um 2 til 2,5 L (eða 1-1,3 kg/L) af málningu á ári89 eða 972-1236 kg/ári. Miðað við að hlutfall plastefna geti verið milli 30% og 80% og að upp undir 40% falli til við háþrýstiþvott89 er örplastlosun í umhverfið frá smábátum undir einu tonni á ári. Þar sem smábátar eru gjarnan málaðir af eigendum uppi á landi fer hluti þessarar losunar í jarðveginn og berst því ekki í hafið.

Stærri skip

Séu stór skip máluð á þriggja til fimm ára fresti er ekki ólíklegt að þau losi að því sem nemur einni stærðargráðu meira af örplasti í hafið. Þá er ekki tekið með það sem fýkur burtu við sprautumálun5 sem getur verið umtalsvert þar sem hérlendir slippir eru ekki yfirbyggðir. Mesta mögulega losun örplasts frá slippunum er þó vegna háþrýstiþvottar

Í hollenskri rannsókn (Verschoor, 2016)89 var áætlað að 14.830 tonn af málningu færu á 1.250 skip eða um 11,8 tonn á skip. Þar var um að ræða stór skip með 4-6 metra hæð undir vatnslínu. Miðað við að hlutfall plastefna geti verið milli 30% og 80% og að 10% - 40% falli til við háþrýstiþvott89 er örplastlosunin mögulega 0,6-2,6 t af á skip. Ekki fengust tölur um fjölda og stærð skipa sem þjónustuð eru í slippum hérlendis árlega en sé tekið dæmi um stóru slippina fjóra, sem eru í Grindavík, Hafnafirði, Reykjavík og Akureyri, þá má ætla að hvert skip sé um tvær vikur í slipp. Þá eru hugsanlega um 100 stór skip á ári tekin í slipp hérlendis, íslensk og erlend. Það má því áætla að 60-260 tonn af örplasti falli til vegna stórra skipa í slipp og þá eru dráttarbrautirnar ekki meðtaldar.

Líftími (tíminn milli þess sem skipið er málað) skipamálningar er almennt styttri en hjá húsamálningu og því er sundrun vegna veðrunar kannski ekki eins há tala. Eflaust veldur veðrun sundrun plastefna í skipamálningu að hluta en ólíklegt er að nokkur sundrun eigi sér stað undir vatnsyfirborðinu. Ekki er vitað með hvaða hraða þær málningarflyksur sem liggja í jarðvegi eftir háþrýstiþvott í slipp sundrast en samkvæmt ónefndum heimildarmönnum hjá slippunum sjálfum er nánast allt sem fellur til vegna háþrýstiþvotta hreinsað upp úr flotkvíunum en hjá slippunum með dráttarbrautir er hreinsað upp eftir hentisemi.

Í fyrrnefndri hollenskri rannsókn89 var reiknað með því að aðeins 3% af því sem fellur til við háþrýstiþvott í slippum berist í hafið en þar í landi voru reglur hertar árið 1985 sem urðu til þess að farið var að hreinsa affallsvatn í slippum. Hérlendis er óheimilt að losa þrávirk efni í hafið og því er viðbúið að þessum úrgangi sé fargað eftir réttum leiðum. Því er áætlað að losun örplasts í hafið frá fjórum stærstu slippum hérlendis sé svipuð og áætluð hjá (Verschoor, 2016)89 allt að 2 - 7,8 tonn.

Þar sem viðnám skipsbolsins við hafflötinn er mjög lítið er áætlað að aðeins um 1% botnmálningar losni af vegna slits, aðallega við núning við bryggju5. Í tilfelli smábáta væri það mjög lág tala en fyrir þau 59 skip sem eru yfir 50 metrar á lengd og ætla má að yfir 10 tonn af málningu þurfi til að fullmála er 1% slit um 6 t á 3 - 5 ára fresti. Því er áætlað að losun örplasts í hafið vegna skipamálningar geti verið á bilinu 3,2 - 10 t á ári.

Heimildir

5. OECD. Emission Scenario Document on Plastics Additives. Í: OECD Series on Emission Scenario Documents.; 2009:141. http://tinyurl.com/y352gwu9.

32. Sundt P, Schulze P-E, Syversen F. Sources of microplastic-pollution to the marine environment. Mepex for the Norwegian Environment Agency. 2014.

108. Hann S, Cole G, Hann S. Investigating options for reducing releases in the aquatic environment of microplastics emitted by ( but not intentionally added in ) products Final Report Approved by. 2018;(February).

109. Durkin M, Tobén M, Germany F. Microplastics in Paints, Coatings and Inks (intentional and non-intentional use) Stakeholder workshop on intentional uses of microplastic particles-Sector-specific discussions. 2018. https://echa.europa.eu/documents/10162/23964241/09{\_}ccb-durkin{\_}en.pdf/a8ad3bdf-939c-46ae-7fcf-5657a0d15036.

110. Ari Trausti Guðmundsson og Flosi Ólafsson. Húsafriðunarnefnd ríkisins. Húsafriðunarnefnd ríkisins; 2003:43. http://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/Steinudhus.pdf.

111. Embætti tollstjóra. Tollskrá.; 2017.

112. Moser CS, Wier TP, Grant JF, o.fl. Quantifying the total wetted surface area of the world fleet : a first step in determining the potential extent of ships ’ biofouling. Biological Invasions. 2016;18(1):265–277. doi:10.1007/s10530-015-1007-z


  1. Fyrirvari: Innlend framleiðsla er ekki tekin með í reikninginn hér því ekki fengust nákvæmar upplýsingar um innflutt magn þeirra efna sem eru notuð til að blanda málningu. Hægt er að nálgast lista yfir fyrirtæki sem kaupa inn vissar vörur og grennslast betur fyrir um hvaða efni um ræðir en Tollstjóri má ekki afhenda slíkan lista nema með lagaheimild og ekki var sóst eftir slíkri heimild.

  2. hér er þéttbýli skilgreint eftir gagnalaginu mannvirki í IS 50V kortagrunninum frá landhelgisgæslunni