Matvælaframleiðsla

Sjávarútvegur

Veiðarfæri eru almennt úr plastefnum, hvort sem það eru línur, net, flotholt og eru því möguleg uppspretta örplastmengunar, annars vegar vegna slits við venjulega notkun og hins vegar vegna veiðarfæra sem tapast í hafið og veðrast. Í umhverfisskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er tekið fram að um 1.300 tonnum af veiðarfærum sé skilað til hafna og þaðan til endurvinnslu (eða viðeigandi förgunar). Ekki eru til upplýsingar um heildarmagn veiðarfæra í notkun á Íslandsmiðum. Magn veiðarfæra íslenska fiskveiðiflotans var gróflega áætlað um 7.313 tonn út frá heildarþyngd afla borið saman við önnur evrópuríki108. Samkvæmt sérfræðingi Hafrannsóknarstofnunar er sú tala allt of há þar sem hérlendis eru fáir bátar fyrir hvert veitt kíló af fiski, samanborið við aðrar fiskveiðiþjóðir, og því góð nýting á veiðarfærum.

Losun örplasts fer eftir því hvernig veiðarfæri um ræðir en sum þeirra slitna og missa þræði við notkun í mismiklum mæli. Aðrar gerðir veiðarfæra líkt og grásleppunet og handfæralínur slitna ekki með þeim hætti. Í sænskri rannsókn var losun örplasts metin 1-10% af heildarþyngd veiðarfæra sænskra fiskiskipa108 með þeim fyrirvara að bæði tölurnar um heildarþyngd veiðarfæra og losun örplasts væru byggðar á veikum grunni. Miðað við 1-10% slit við notkun á 7.000 tonnum af veiðarfærum þá er möguleg örplastlosun 70-700 tonn. Það er nauðsynlegt að afla upplýsinga um magn veiðarfæra á íslenskum miðum áður en hægt er að leggja nákvæmt mat á hversu hátt hlutfall veiðarfæra fellur til við notkun á ársgrundvelli. Varðandi almenna veðrun veiðarfæra og slit er einnig þörf á frekari upplýsingum eða rannsóknum108.

Sjókvíaeldi

Mannvirki og búnaður í sjókvíaeldi er að töluverðu leyti úr plasti, til dæmis net, rör, flotholt ofl. og er viðbúið að eitthvað af örplasti losni vegna slits og veðrunar. Öll slík losun fer óhjákvæmilega beint í hafið en ekki hefur tekist að nálgast mælingar eða gögn um þessa losun eða stærðargráðu hennar. Norsk skýrsla um losun örplasts32 fjallaði stuttlega um örplastmengun frá sjókvíaeldi en vísaði ekki í töluleg gögn. Því er þörf á frekari gögnum, t.d. í formi staðlaðrar losunar af örplastögnum fyrir hverja gerð sjókvíar, enda viðbúið að einhver munur sé á milli hönnunar ólíkra framleiðenda. Samkvæmt Matvælastofnun eru samtals um 73 sjókvíar í notkun á Íslandi 2018 á Vestfjörðum og Austfjörðum og flokkast þær allar sem stórar kvíar eða 160 metrar í ummál. Með stöðluðum losunartölum fyrir sjókvíar að þessu tagi væri því hægt að áætla heildarlosun á landsvísu.

Ekki er að svo stöddu hægt að áætla heildarlosun örplasts frá sjókvíaeldi á Íslandi vegna skorts á gögnum og auk þess ríkir óvissa um stærðargráðu losunarinnar, einkum í ljósi mikils vaxtar atvinnugreinarinnar.

Landbúnaður (heyrúlluplast)

Heyrúlluplast getur lent í umhverfinu og orðið að örplasti en erfitt er að áætla að hversu miklu leyti. Notkun er t.d. breytileg eftir árferði og innflutningstölur fyrir tiltekið ár því ekki endilega lýsandi, auk þess sem notuðu plasti getur verið skilað til móttökuaðila á öðru ári en það var notað. Til að taka mið af þessu er því hér byggt á meðaltali fyrir árin 2013-2017, bæði varðandi innflutning og magn sem skilað hefur verið til móttökuaðila. Samkvæmt Úrvinnslusjóði þarf hér að gera ráð fyrir því að heyrúlluplast geti við notkun þyngst um allt að 30%, vegna raka og drullu, en almennt er gert ráð fyrir um 20-25% þyngdaraukningu (Úrvinnslusjóður, munnleg heimild). Innflutningur heyrúlluplasts á árunum 2013-2018 var að meðaltali tæplega 2.000 tonn129,130 og má því ætla að árleg notkun sé af þeirri stærðargráðu. Á árunum 2013-2016 var að meðaltali skilað inn 2.094 tonnum af notuðu heyrúlluplasti129, sem annaðhvort fór í endurvinnslu, var urðað eða fargað, og sé gert ráð fyrir 20-25% þyngdaraukningu vegna raka og drullu má ætla að það hafi upprunalega verið í kringum 1.700 tonn. Sé tekið mið af þessum forsendum má gera ráð fyrir að árlega endi um 300 tonn af heyrúlluplasti annaðhvort í almennri urðun eða umhverfinu. En ekki hefur verið metið hversu mikið fer í almenna urðun annars vegar og umhverfið hins vegar.

Heimildir

32. Sundt P, Schulze P-E, Syversen F. Sources of microplastic-pollution to the marine environment. Mepex for the Norwegian Environment Agency. 2014.

108. Hann S, Cole G, Hann S. Investigating options for reducing releases in the aquatic environment of microplastics emitted by ( but not intentionally added in ) products Final Report Approved by. 2018;(February).

129. Úrvinnslusjóður. Ársskýrsla Úrvinnslusjóðs 2016. Úrvinnslusjóður; 2016. http://www.urvinnslusjodur.is/media/arsskyrslur/Arsskyrsla-2016.pdf.

130. Statistics Iceland. Innflutningur eftir tollskrárnúmerum 2016-2018, kafli 1-40. 2019. http://px.hagstofa.is/pxis/api/v1/is/Efnahagur/utanrikisverslun/1_voruvidskipti/03_inntollskra/UTA03801.px.